Um Furu

Fura er ríflega 40 ára gamalt fyrirtæki sem sérhæfir sig í endurvinnslu á grófum úrgangi úr málmi, gúmmí, plasti og timbri auk þess sem Fura tekur við rafgeymum til endurvinnslu. Í samanburði við aðra aðila í greininni hefur Fura þá sérstöðu að taka allan úrgang í sundur og flokka, t.d. verðmætari málma frá almennu brotajárni, og hámarka þannig virði hráefnisins. Mestur hluti afurða fer til endurvinnslu hjá stálbræðslum og hráefnisvinnslum í Evrópu auk þess sem timburafurðir fara á innanlandsmarkað sem undirlag fyrir hross undir heitinu Furuflís.

Starfsemi frá 1981
Fura var stofnuð árið 1981 og í upphafi voru verkefnin einkum á sviði byggingarverktöku. En fljótlega var ákveðið að fyrirtækið skyldi helga sig endurvinnslu og voru stjórnendur Furu frumkvöðlar á því sviði á tímum þegar umhverfismál og endurvinnsla voru langt frá því jafn fyrirferðarmikil í samfélaginu og nú er. Aðalstarfsstöð fyrirtækisins er á 7 hektara lóð við Hringhellu 3 í Hafnarfirði, þar sem fyrirtækið hefur verið frá upphafi starfseminnar. Þar eru skrifstofa og vinnusvæði hátt í 40 starfsmanna.

Umfangsmikil flokkun
Fura ræður yfir fullkomnum og fjölbreyttum tækjabúnaði til endurvinnslu, hvort sem um er að ræða mismunandi málma, gúmmí, timbur eða plast. Þannig gleypa stórvirkar vélar hráefni á borð við bílhræ, fiskikör, hjólbarða eða timbur og skila af sér flokkuðum úrgangi, tilbúnum til annarra og oft nýrra nota.

Nýjar áskoranir
Fyrirtæki í greininni standa nú frammi fyrir nýjum og flóknari verkefnum vegna hertari krafna um aukna flokkun úrgangs og taka reglurnar gildi 1. janúar 2023. Um þessar mundir vinnur starfsfólk Furu að uppsetningu á nýjum og fullkomnum búnaði sem m.a. verður notaður til aukinnar flokkunar í þessu skyni.

Starfsfólk

Hafnarfjörður
Dagný M. Jónsdóttir
Gámalosun og afgreiðsla
Ólafía Sigurjónsdóttir
Reikningsgerð
Úlfar Haraldsson
Framkvæmdastjóri
Þorvaldur Gíslason
Framleiðslustjóri
Akureyri
Gunnar Þ. Garðarsson
Verkefnastjóri landsbyggðar

Á frábærum stað í Hafnarfirði

Við höfum verið á sama stað í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar frá upphafi. Fyrst um sinn voru einu nágrannarnir álverið í Straumsvík, Sædýrasafnið og golfklúbburinn Keilir á Hvaleyrarholti. Nú erum við nágrannar fjölda fyrirtækja í stöðugt stækkandi iðnaðarhverfi í útjaðri byggðarinnar; nánar tiltekið við Hringhellu 3.